Enn setið um árásarmennina

Enn er umsátursástand við verslunarmiðstöðina í Naíróbí í Kenía þar sem hryðjuverkamenn skutu að minnsta kosti 43 til bana í gær. Ljóst er að börn eru meðal þeirra sem létust.

Árásarmennirnir halda enn hópi fólks í gíslingu. Sjónarvottar segja að mennirnir séu ekki aðeins vopnaðir rifflum heldur einnig sprengjum. Þeir eru sagðir hafa sprengt handsprengjur inni í byggingunni. 

Mikill viðbúnaður er á staðnum og stórt svæði umhverfis bygginguna hefur verið rýmt. Í frétt BBC segir að talið sé að árásarmennirnir haldi til í stórmarkaði í verslunarmiðstöðinni. Skothvellir hafa heyrst frá miðstöðinni í morgun. Tveir hermenn hafa særst í átökum við hryðjuverkamennina.

Um 20 klukkustundir eru nú síðan hópur manna, sem til heyra Shebab-hryðjuverkahópnum frá Sómalíu, ruddist inni í verslunarmiðstöðina og hóf á skjóta á fólk á háannatíma. Talið er að um þúsund manns hafi verið í byggingunni er árásin hófst.

Í morgun varð ljóst að 43 hafa látist af sárum sínum eftir árásina. Um 200 eru særðir, sumir mjög alvarlega.

Vitni segja að árásarmennirnir hafi sleppt múslímum en skotið aðra. Fólk hafi verið látið sanna stöðu sína með því að segja eitthvað á arabísku. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert