Stjórnvöld í Norður-Kóreu eru æf yfir þeim fréttum að þau hafi látið taka skemmtikrafta af lífi til að fela fortíð forsetafrúarinnar. Þeir segja fréttirnar með öllu ósannar og glæpsamlegar. Segja þau þær til þess eins gerðar að gera lítið úr leiðtoga landsins, Kim Jong-Un.
Fréttir hafa m.a. birst af því í japönskum dagblöðum að nokkrir meðlimir sinfóníuhljómsveitar sem og aðrir listamenn hafi verið teknir af lífi. Ástæðan var sögð sú að þeir hefðu tekið upp kynlífsathafnir sínar. Ri Sol-Ju, eiginkona Kims forseta, var eitt sinn meðlimur í sinfóníuhljómsveitinni.
Japanskt dagblað heldur því fram að aftakan hafi verið gerð til að þagga niður í fólki sem þekkti til Ri er hún var skemmtikraftur. Þá er sagt að ein konan sem var tekin af lífi hafi verið fyrrverandi kærasta Kims.
Í frétt blaðsins segir að lögreglan hafi tekið upp samtöl listafólksins og þar hafi m.a. verið sagt að Ri „hefði leikið sér á sama hátt“ og það gerði. Blaðið hefur þetta eftir háttsettum manni í ríkisstjórn Norður-Kóreu.
Stjórnvöld í Norður-Kóreu sögðu í dag að fréttirnar væru verk „geðsjúklinga“ og „brjálæðinga“ og runnar undan rifjum stjórnvalda í Suður-Kóreu. Vara þau við því að þeir sem „fremji slíkan glæp“ fái borgað fyrir það.