Nadezhda Tolokonníkova, liðskona Pussy Riot, byrjaði í hungurverkfalli í dag en með því vill hún mótmæla aðbúnaði í vinnubúðunum sem hún afplánar tveggja ára dóm og líflátshótunum sem henni hafa borist í búðunum.
Tolokonníkova var dæmd fyrir pönkmessu sem hún flutti ásamt fleiri liðsmönnum hljómsveitarinnar í Moskvu er Vladimír Pútín var í framboði til forseta landsins. Auk hennar fékk María Aljokhína sama dóm fyrir messuna.
Í bréfi sem Tolokonníkova sendi á fjölmiðla lýsir hún aðbúnaðinum í vinnubúðunum í Mordovíu og segir hann skelfilegan. Um er að ræða vinnubúðir fyrir konur. Þær eru neyddar til þess að þræla í 16-17 klukkustundir á dag og fá einungis fjögurra tíma svefn á sólarhring.
Hún segir að það sé öfgafullt að fara í hungurverkfall en hún telji að það sé það eina sem hún geti gert. „Ég krefst þess að það verði komið fram við okkur sem manneskjur ekki þræla.“
Tolokonníkova segir að þær þurfi að vinna frá 7:30 að morgni til 0:30 að nóttu alla daga vikunnar. Þeim sé refsað reglulega og beittar miklu harðræði. Ef fangar brjóta reglur sem gilda í búðunum eru þeir barðir og þeim neitað um mat. Er það refsingin fyrir smávægileg brot. Eins séu þær barðar, sviptar rétti til að fara á klósett og fá vatn að drekka.
Einu sinni hafi hóp fanga verið skipað að afklæðast og sitja við sauma naktar. Með þessu átti að bæta frammistöðu þeirra í vinnubúðunum. Fangar í búðunum eru hræddir við eigin skugga, skrifar hún og segir að ef einhver kvarti þá sé bætt við refsingum.
Hún segir að aðrir fangar eigi von á refsingu hafi þeir einhver afskipti af henni. Til að mynda hafi konu verið refsað fyrir að drekka te með henni. En kornið sem fyllti mælinn var líflátshótun sem hún fékk frá aðstoðarfangelsisstjóranum.