„Hvíta ekkjan“ meðal árásarmanna?

Hvíta ekkjan, Samantha Lewthwaite, er 29 ára.
Hvíta ekkjan, Samantha Lewthwaite, er 29 ára. Skjáskot af Sky

Breska utanríkisráðuneytið rannsakar nú ábendingar um að bresk kona sem kölluð hefur verið „hvíta ekkjan“ tengist hryðjuverkaárásinni á verslunarmiðstöðina í Naíróbí.

Fréttir hafa borist af því að hvít kona með slæðu um höfuð sitt hafi hrópað skipanir á arabísku að árásarmönnunum í Westgate-verslunarmiðstöðinni. Er talið að þarna sé um að ræða Samantha Lewthwaite, ekkju sprengjumannsins Jermaine Lindsay, sem m.a. tók þátt í hryðjuverkaárás í Lundúnum 7. júlí árið 2005.

Í frétt Sky-fréttastofunnar segir að hún sé eftirlýst af stjórnvöldum í Kenía fyrir tengsl við hryðjuverkahóp.

Í mars í fyrra bárust fregnir af því að hún hefði flúið yfir landamærin frá Kenía til Sómalíu.

Fréttaritari Sky í Kenía segist hafa séð myndir af hvítri konu með vopn í verslunarmiðstöðinni.

„Við vitum að hún er á svæðinu. Hún hefur verið bendluð við margar árásir í Austur-Afríku og þeir hafa verið að reyna að hafa hendur í hári hennar,“ hefur Sky eftir fréttaritara sínum.

Hann segir þó alls óvíst að um sé að ræða „hvítu ekkjuna“.

Leiðtogi Shabab-hryðjuverkahópsins hefur neitað því að Bretar séu meðal árásarmanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert