Fann fyrir löngun til að drepa

AFP

Franskur maður, sem faldi sig í fimm klukkustundir í bankaútibúi í verslunarmiðstöðinni í Nairóbí í Kenía þegar árásin átti sér stað um helgina, segist hafa fyllst löngunar til að drepa árásarmennina þegar hann kom auga á lík af barni í verslunarmiðstöðinni. 

Maðurinn, sem heitir Eric, sagðist í fyrstu hafa fundið fyrir hjálparleysi en þegar hann sá líkið hefði hann fyllst reiði og haldið að barnið væri jafnvel dóttir hans. „Á þessari stund hugsaði ég um dóttur mína og ef ég hefði haft byssu, þá hefði ég drepið hryðjuverkamennina þegar í stað. Ég hefði ekki hugsað mig um. Ég hefði ekki hikað,“ sagði hann.

Eric, sem rekur fyrirtæki í Kenía, sagði að honum og 20 öðrum hefði verið fylgt út af lögreglu í öruggt skjól. „Þetta var eins og á vígvelli,“ sagði maðurinn. „Það voru skothylki, kúlur, glerbrot og blóð á gólfinu,“ sagði hann.

„Það var þarna sem þetta varð erfitt. Þú finnur fyrir hjálparleysi, þér finnst eins og  þú getir ekkert gert, þér líður eins og þú sért kjöt,“ sagði hann.

Eric kom í bankann um hálf 12 fyrir hádegi á laugardeginum, aðeins nokkrum mínútum áður en árásin hófst. Að sögn hans hélt starfsfólkið í fyrstu að um vopnað rán væri að ræða.
 
Eric hefur ráðfært sig við geðlækni eftir árásina en hyggst ekki flytja frá Kenía eða breyta lífi sínu á einhvern hátt, jafnvel þó að hann muni hafa áhyggjur af dóttur sinni þegar hún er í skólanum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert