Skipuleggjendur heimsmeistaramótsins í knattspyrnu sem fram fer í Katar árið 2022 segja að þeim blöskri meðferðin á farandverkamönnum sem eru að störfum í landinu vegna undibúnings keppninnar.
Rannsókn breska dagblaðsins The Guardian hefur leitt í ljós að komið sé fram við verkamenn frá Nepal eins og þræla; þeir séu misnotaðir og þeim misþyrmt.
Alþjóðaknattspyrnusambandið (FIFA), sem skipuleggur mótið, segir að ríkisstjórn Katar muni hefja rannsókn á málinu, en talsmenn FIFA segja að það valdi þeim miklum áhyggjum.
Stjórnvöld í Katar hafa sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins. Þar segir að ekki sé hægt að afsaka svona framkomu gagnvart neinum starfsmanni.
Rannsókn Guardian hefur leitt í lijós, að a.m.k. 44 verkamenn hafi látið lífið af í vinnuslysum eða af völdum hjartameins á milli 4. júní og 8. ágúst sl.
Þá hafa blaðamenn Guaridan sannanir fyrir því að hluti vinnuaflsins hafi verið þvingaður til starfa við að reisa þau mannvirki þar sem leikirnir fara fram.
Vitað er til þess að nepalskir verkamenn hafi ekki fengið greidd laun mánuðum saman. Launum hefur verið haldið eftir og vegbréfin þeirra tekin af þeim. Er það gert til að takmarka ferðalög þeirra.
Þá er vitað til þess að í einhverjum tilfellum hafi mönnum hafi verið neitað um aðgengi að drykkjarvatni á vinnusvæðum.
FIFA segir í yfirlýsingu, að það sé forgangsverkefni skipuleggjendanna að tryggja heilsu, öryggi, velferð og reisn allra starfsmanna. FIFA hyggst beita sér fyrir því að bæta aðstöðu allra verkamanna sem koma að verkefninu.