Kanadískur vísindamaður sem með þekkingu sinni róaði óttaslegna þjóð sína er SARS-faraldurinn, heilkenni alvarlegrar bráðrar lungnabólgu, reið yfir 2003, hefur eftir andlát sitt vakið mikla umræðu um líknardráp.
Donald Low lést 18. september, 68 ára að aldri. Sjö mánuðum fyrr hafði hann verið greindur með krabbamein í heila.
Átta dögum fyrir andlátið tók hann upp myndskeið sem nú hefur verið birt á YouTube. Þar biðlar hann til kanadískra stjórnvalda að breyta lögum svo að hann og aðrir dauðvona sjúklingar, geti valið hvenær og hvernig þeir deyja.
Líknardráp er bannað með lögum í Kanada.
„Ég mun deyja. Það sem veldur mér áhyggjum er hvernig ég mun deyja,“ segir hann meðal annars í myndskeiðinu og lýsir því hvernig heilsu sinni hefur hrakað.
„Ég mun að lokum lamast og þá þarf að bera mig frá baðherberginu og í rúmið. Ég mun eiga í erfiðleikum með að kyngja. Hvernig þetta mun enda, það er það sem veldur mér áhyggjum.“
Í myndbandinu gagnrýnir Low andstæðinga líknardráps og segist sjálfur vilja nýta sér slíkt, væri það löglegt.
„Ég vildi að þeir gætu verið í líkama mínum í einn sólarhring og ég held að þeir myndu skipta um skoðun. Ég er pirraður að geta ekki haft völdin í mínu eigin lífi, geta ekki tekið mínar eigin ákvarðanir um hvenær þetta er komið gott. Því að láta fólk þjást þegar annað er í boði? Ég bara skil það ekki.“
Talsmaður kanadíska dómsmálaráðuneytisins segir engin áform um að endurskoða lögin. Síðast var kosið um málið á kanadíska þinginu árið 2010.