Er lýðræði dragbítur á hagvöxt?

Byggingarkrani ber vitni framkvæmdum í hverfi, sem hefur tekið stakkaskiptum …
Byggingarkrani ber vitni framkvæmdum í hverfi, sem hefur tekið stakkaskiptum í Addis Ababa, höfuðborg Eþíópíu. Mikill uppgangur er í viðskiptalífi landsins og þess sér greinilega merki í höfuðborginni. AFP

Þróunaraðstoð í Afríku hefur yfirleitt verið spyrt saman við lýðræðisvæðingu, uppbyggingu réttarríkis og innviða í líkingu við það sem gerist í vestrænum ríkjum. Viðkvæðið hefur verið að slíkar umbætur og velmegun fari saman. Einræði hamli hins vegar þróun og sé ávísun á versnandi kjör. Í þremur löndum Austur-Afríku hefur stoðunum verið kippt undan slíkum kenningum.

Í Rúanda er gagnrýnendum stjórnvalda stungið í fangelsi.

Stjórn Úganda hótar þeim, sem krefjast borgaralegra réttinda, með banni. Stjórnvöld í Eþíópíu loka netsíðum stjórnarandstæðinga. Slíkar fréttir heyrast helst frá þessum löndum í vestrænum fjölmiðlum, en það er fleira að frétta þaðan þótt ekki fari hátt. Í Rúanda hefur hagvöxtur að meðaltali verið 8,1% undanfarin fimm ár, 7,4% í Úganda og 9,7% í Eþíópíu. Meðaltalið í löndunum fyrir sunnan Sahara er 4,6% á sama tímabili.

Í Rúanda hefur Föðurlandsfylking Rúanda verið við völd frá því að þjóðarmorðið var stöðvað fyrir tæpum 20 árum og Paul Kagame stjórnað harðri hendi á stóli forseta síðan 2000. Rúanda var í rúst 1994 eftir að hútúar slátruðu rúmlega 800 þúsund manns, sem flestir voru af þjóðflokki tútsa.

Á tveimur áratugum hafa orðið alger umskipti í landinu. Einkageirinn blómstrar, spilling hefur að miklu leyti verið upprætt og verulega dregið úr glæpum. Alþjóðabankinn hefur sett Rúanda á stall sem eitt af bestu löndunum í Afríku til að eiga í viðskipti. Kagame eru þökkuð þessi umskipti og fyrr í þessum mánuði vann flokkur hans stórsigur í kosningum. Andstæðingar Kagames mega hins vegar gæta sín. 2011 var blaðamaðurinn Charles Ingabire, sem gagnrýnt hafði stjórnina, skotinn til bana í Úganda og fyrir ári var Victoire Ingabire, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, dæmd í átta ára fangelsi.

Yoweri Museveni komst til valda í Úganda árið 1986. Hann var meðal þeirra, sem börðust gegn einræðisherranum Idi Amin og steyptu honum af stóli 1979. Úganda hefur ef til vill einkum verið í fréttum vegna Josephs Konys, leiðtoga Andspyrnuhers drottins, sem klófesti börn og vígbjó. Kony hraktist hins vegar frá Úganda fyrir löngu. Í tíð Musevenis hefur komist á stöðugleiki og vöxtur í landinu. Museveni hefur hlotið lof, en afskipti hans af stríðinu í Kongó, afnám takmarkana á hversu lengi forsetar megi sitja við völd og harkalegar aðgerðir gegn stjórnarandstöðunni hafa vakið gagnrýni.

August Meles Zenawi lést í ágúst í fyrra eftir að hafa verið forsætisráðherra frá 1995. Myndir frá hungursneyðinni fyrir tveimur áratugum koma enn í huga margra þegar Eþíópía er nefnd. Nú stunda Eþíópíumenn útflutning á kjöti og grænmeti. Enn eru þeir þó ekki lausir við vandamál hungurs og vannæringar. Umsvifin ná til Íslands. Í gær var tilkynnt um samning eþíópskra stjórnvalda við íslensk-bandaríska fyrirtækið Reykjavík Geothermal um að reisa allt að 1.000 MW jarðvarmaorkuver í Eþíópíu, sem gæti kostað 500 milljarða króna. Stjórn Zenawis var gagnrýnd fyrir að hrekja tugþúsundir manna af landi sínu til að hleypa að erlendum fjárfestum í landbúnaði. Ekki er ljóst hvort arftaki hans, Hailemariam Desalegn, mun halda uppi svipuðum stjórnarháttum, en það þykir góðs viti að valdataka hans eftir andlát Zenawis fór friðsamlega fram og hann þykir hafa verið fljótur að festa sig í sessi. Hann hefur sagst engu ætla að breyta frá valdatíð forvera síns.

Efnahagsframfarir í Kína hafa grafið undan fullyrðingunni um að lýðræði sé forsenda velmegunar. Kínverjar hafa látið að sér kveða í Afríku og þykir mörgum leiðtogum í álfunni léttir að ólíkt vestrænum fjárfestingum og aðstoð fylgi kínverskri athafnasemi engar kvaðir.

Ofantaldir leiðtogar hafa verið nefndir afrísku ljónin. Einræðisherrar í Afríku hafa hins vegar ekki ávallt fært með sér velsæld og hamingju. Nægir þar að nefna Idi Amin í Úganda, Jean Bedel Bokassa í Mið-Afríkulýðveldinu, Mobutu Sese Seko í Zaír eða Kongó eins og það heitir nú og Charles Taylor í Líberíu, sem í vikunni var dæmdur í hálfrar aldar fangelsi fyrir stríðsglæpi.

Vandi afrískra lýðræðisríkja er sá að þar eru haldnar kosningar, en umgjörð lýðræðisins er of veik til að koma í veg fyrir misnotkun valds og spillingu. Fyrir vikið getur lýðræðið virst dragbítur á þróun og velmegun.

Rúanda er langt frá hafi og getur því ekki farið þá leið að nota ódýrt vinnuafl til að keppa við framleiðslu á ódýrum fötum og rafmagnsvörum við framleiðendur nær útflutningshöfnum. Þar er hins vegar gróskumikið land. Þegar núverandi stjórnvöld komust til valda var kraftur settur í kaffirækt. Staðan var þannig að kaffið var svo lélegt að enginn vildi vinna það. Kaffiræktendur höfðu hins vegar enga ástæðu til að bæta sig vegna þess að enginn vildi kaffið þeirra. Stjórnvöld settust niður með ræktendum og framleiðendum og fengu þá til að snúa bökum saman. Nú eru kaffibaunir frá Rúanda sælkerakostur hjá kaffihúsakeðjunni Starbucks.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert