Þingkosningar fara nú fram í Austurríki og er búið að loka kjörstöðum. Útlit er fyrir að núverandi stjórnarflokkar, samsteypustjórn Íhaldssama þjóðarflokksins (OeVP) og Jafnaðarmanna (SPOe), hafi tryggt sér áframhaldandi völd, en kjörtímabilið í Austurríki er fimm ár.
Fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins, að Frelsisflokkurinn, sem er lengst til hægri, hafi stóraukið fylgi sitt, en hann mælist nú með 22,4% stuðning.
Alls voru sex milljónir á kjörskrá. Þeir kusu sér 183 fulltrúa sem munu sitja í neðri deild þingsins. Til að eiga fulltrúa á þinginu verður flokkur að hljóta yfir 4% stuðning.
Samkvæmt útgönguspám fékk Jafnaðarmannaflokkur Werners Faymanns, kanslara Austurríkis, 26,4% stuðning og Íhaldssami þjóðarflokkurinn 23,8%. Samanlagður stuðningur er því 50,2%, sem er minna en flokkarnir fengu samanlagt í kosningunum árið 2008. Þá nutu þeir 55,3% stuðnings.