Útlitið ekki bjart í Washington

Bandaríski fáninn blaktir við hún við þinghúsið í Washington.
Bandaríski fáninn blaktir við hún við þinghúsið í Washington. AFP

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti í dag frumvarp repúblikana til laga þar sem kveðið er á um að heilbrigðislöggjöf Obama Bandaríkjaforseta verði frestað. Líkt og fram hefur komið standa þarlend stjórnvöld frammi fyrir að þurfa að stöðva starfsemi ríkisstofnana náist ekki samkomulag um ný fjárlög.

Nú hefur Bandaríkjaþing tæpa tvo sólarhringa til að ná samkomulagi til að tryggja rekstur ríkisstofnana. Það þykir hins vegar ólíklegt að það náist vegna flækjustigs og deilna á þinginu.

Obama hefur þegar hótað að beita neitunarvaldi verði gerð tilraun til að stöðva heilbrigðisfrumvarp forsetans. 

Með samkomulaginu í fulltrúadeildinni, sem er neðri deild Bandaríkjaþings, er búið að tryggja fjármögnun ríkisstjórnarinnar þar til fram í miðjan desembermánuð. Það felur jafnframt í sér að heilbrigðislöggjöf forsetans, sem kallast Obamacare vestanhafs, verði frestað um eitt ár. Auk þess verði skattur á lækningatæki afnuminn. 

Öldungadeildin, sem er efri deild Bandaríkjaþings, þarf að samþykkja frumvarpið. Þar eru demókratar hins vegar í meirihluta. Harry Reid, leiðtogi demókrata í öldungadeildinni, hefur sagt að frumvarpinu verði hafnað.

„Nú, þegar fulltrúadeildin hefur enn á ný brugðist við, er það í höndum öldungadeildarinnar að samþykkja þetta frumvarp án tafar til að koma í veg fyrir lokun ríkisstofnana,“ sagði John Boehner, forseti fulltrúadeildarinnar, að lokinni atkvæðagreiðslu.

„Klárum málið,“ bætti hann síðan við.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert