Bandaríkin byrjuð að lamast

Stjórnvöld í Bandaríkjunum eru byrjuð að loka ríkisstofnunum eftir að meirihlutinn í fulltrúadeild bandaríska þingsins neitaði að samþykkja fjárlög næsta árs.

Yfir 700 þúsund starfsmenn bandaríska ríkisins eiga því von á því að þeir séu komnir í launalaust leyfi án nokkurra trygginga um að fá greitt fyrir tímabilið þegar samkomulag næst.

Meirihluti repúblikana í fulltrúadeild bandaríska þingsins samþykkti snemma á sunnudag frumvarp þar sem dregið var úr fjárframlögum til Obamacare sem er ný löggjöf um sjúkratryggingar, og skattur á lækningatæki afnuminn. Öldungadeild bandaríkjaþings hafnaði síðan í gærkvöldi frumvarpinu með 54 atkvæðum gegn 46.

Pattstaða hefur ríkt í Washington í einvígi flokkanna um fjárlög næsta árs en fjárheimildir hins opinbera runnu út á miðnætti Styrinn stóð um heilbrigðisumbætur forsetans, Obamacare, sem repúblikanar hafa leitast við að draga úr með viðaukum við bráðabirgðafjárlög demókrata.

Er þetta í fyrsta skipti í sautján ár sem ekki tekst að semja um fjárlögin og stjórnvöld neyðast til þess að skella í lás í ríkisstofnunum.

Forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, talaði til bandarískra hermanna í myndútsendingu í nótt þar sem hann tilkynnti þeim um að þeir fengju greitt þrátt fyrir að ríkisstofnanir séu að lamast.

Obama hefur einnig ritað undir neyðarlög til þess að tryggja að ákveðnir ríkisstarfsmenn fengju áfram greitt en það gildir einungis um brot af starfsmönnum bandaríska ríkisins.

„Því miður hefur þingið ekki uppfyllt skyldur sínar, því hefur mistekist að koma fjárlögum í gegn,“ sagði Obama í skilaboðum á sjónvarpsstöð hersins.Hann segir þar að tryggt verði að þeir hermenn sem eru að störfum fái greitt þrátt fyrir lokun stofnana. Því þrátt fyrir lokun hefur engin breyting orðið á þjóðaröryggi landsins og nauðsynlegt að hermenn sinni skyldum sínum.

En Obama varaði aðra ríkisstarfsmenn við því að þeir sem ekki væru í einkennisbúningum ættu á hættu að vera launalausir um tíma.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert