Einn af hverjum átta þjáist af hungri

AFP

Dregið hefur úr hungursneyðum í heiminum en einn af hverjum átta jarðarbúum þjáist af viðvarandi hungri. Alls fá 842 milljónir manna, eða 12% jarðarbúa, ekki nóg að borða svo þeir geti lifað eðlilegu lífi. Þetta er niðurstaða nýrrar skýrslu FAO sem kynnt var í dag. Um er að ræða tímabilið 2011-2013 en á árunum 2010-2012 bjuggu 868 milljónir við slíkar aðstæður.

Staðan er verst í Afríku líkt og yfirleitt áður. Einkum er það svæðið sunnan Sahara þar sem vannæringin er verst. Talið er að einn af hverjum fimm Afríkubúum búi við hungur. Jafnframt er vannæring alvarlegt vandamál í Suður-Asíu, samkvæmt skýrslu Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, FAO.

Alls létust 258 þúsund Sómalar úr hungri á árinu 2011. Er þetta miklu fleiri en talið var, samkvæmt upplýsingum frá Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, FAO. Meirihluti þeirra eru börn yngri en fimm ára eða 133 þúsund.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka