Bálreiðir ferðamenn ósáttir við lokanir

Frelsisstyttan í New York er eitt helsta aðdráttarafl ferðamanna sem sækja borgina heim en þar sem ekki náðist samkomulag um fjárlög bandaríska ríkisins í þinginu þá voru starfsmenn ríkisstofnana sendir í launalaust leyfi. Þar á meðal starfsmenn á Elliseyju þar sem styttan er.

Þess í stað gátu ferðamenn farið í bátsferð þar sem siglt er fram hjá Frelsisstyttunni,  Ground Zero og Brooklyn brúnni.

Fjölmargar stofnanir í Bandaríkjunum verða lokaðar í dag líkt og í gær. Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, var harðorður í garð repúblikana í gær og sagði að lokunin hefði ekki þurft að verða að veruleika. Það væri verk repúblikana að svo hafi farið. Þeir hefðu notað fjárlagafrumvarpið til að reyna að hindra gildistöku nýju laganna um sjúkratryggingar, sem nefnd hafa verið Obamacare.

Repúblikanar skelltu hins vegar skuldinni á Obama og Harry M. Reid, leiðtoga meirihlutans í öldungadeildinni, vegna þess að þeir hefðu neitað að semja um málið og ekki léð máls á neinum tilslökunum.

Skoðanakönnun, sem The Washington Post birti í fyrradag, bendir til þess að almenningur í Bandaríkjunum hafi fengið sig fullsaddan á karpi flokkanna og óánægjan beinist einkum að repúblikönum. Aðeins 26% sögðust vera ánægð með framgöngu repúblikana í málinu, 34% voru ánægð með demókrata og 41% með Obama forseta.

Könnun Quinnipiac-háskóla, sem birt var í gær, bendir til þess að 72% Bandaríkjamanna séu andvíg því að starfsemi ríkisstofnana sé stöðvuð með það að markmiði að hindra gildistöku sjúkratryggingalaganna.

Obama varar við því að lokunin geti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir hagkerfi Bandaríkjanna sem ekki er burðugt fyrir. „Við vitum að þegar repúblikanar lokuðu síðast ríkisstofnunum árið 1996 þá hafi það slæm áhrif á efnahag okkar. Ólíkt 1996 þá er hagkerfið nú enn að jafna sig eftir verstu kreppu þessarar kynslóðar,“ segir Obama.

Í dag hefur Obama boðað forstjóra margra stærstu fyrirtækja Bandaríkjanna á fund sinn í Hvíta húsinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert