Ók niður vélhjólamenn í skelfingu

Myndskeiðið var birt á YouTube. Hér sést þegar ökumaður jeppans …
Myndskeiðið var birt á YouTube. Hér sést þegar ökumaður jeppans brunar í gegnum hópinn.

Einn vélhjólmaður liggur alvarlega slasaður á sjúkrahúsi og annar hefur verið ákærður af lögreglu eftir að átök brutust út á milli vélhjólamanna og ökumanns jeppa í New York. Atvikið var tekið upp á myndband en því sést þegar jeppaeigandinn ekur niður vélhjólamenn er hann flýr í ofboði undan þeim.

Í myndskeiðinu, sem hefur farið eins og eldur um sinu í netheimum, sést þegar hópur vélhjólamanna umkringir Range Rover jeppa eftir árekstur en í skelfingu sinni brunar ökumaðurinn svo af stað með þeim afleiðingum að einn vélhjólaökumaður verður undir og slasast alvarlega.

Í framhaldinu veita aðrir vélhjólakappar jeppanum eftirför. Einn þeirra var með myndavél á hjálminum sínum og tók atburðinn upp, að því er fram kemur á vef NBC-fréttastöðvarinnar í Bandaríkjunum

Atvikið átti sér stað síðdegis á sunnudag þegar hátt í 30 vélhjólakappar óku í heimildarleysi eftir hraðbraut í New York í viðburði sem kallast Hollywood Stuntz. Í myndbandinu sést þegar einn vélhjólaökumaður hægir á sér fyrir framan jeppann og gaf honum merki. Það varð til þess að jeppinn rakst undan í hjólið, en þá umkringdu vélhjólamennirnir jeppann. 

Lögreglustjórinn Raymond Kelly segir að hluti hópsins hafi þá byrjað að berja á bílnum og notuðu þeir hníf til að sting á dekkin.

Við þetta verður ökumaður jeppans, hinn 33 ára gamli Alexian Lien, óttasleginn, en með honum í för var eiginkona hans og tveggja ára gömul dóttir. Í myndbandinu sést þegar hann brunar af stað og ekur yfir vélhjól og a.m.k. einn ökumann. Þá upphefst æsileg eftirför.

Lamaður fyrir neðan mitti

Maðurinn sem slasaðist heitir Edwin „Jay“ Mieses, en hann er 32 ára gamall. Frænka hans segir í samtali við fjölmiðla að talið sé líklegt að hann verði lamaður fyrir neðan mitti til æviloka. 

Sá sem hefur verið ákærður, heitir Christopher Cruz. Hann er 23 gamall og frá New Jersey. Hann var ákærður fyrir að stofna öðrum í hættu, fyrir háskaakstur og fyrir að stofna lífi og heilsu barns hættu. Hann hlaut einnig áverka í árekstrinum, en þeir voru minniháttar.

Delilah Domenech, frænka mannsins sem slasaðist alvarlega, segir að Mieses hafi einfaldlega verið saklaus vegfarandi og að hann hafi verið að athuga með Cruz í kjölfar upphaflega árekstursins.

Þegar Lien varð óttasleginn varð Mieses undir bílnum.  Að sögn lögreglu brotnuðu báðir fótleggir hans. Fjölskylda hans segir að áverkarnir séu mun alvarlegri, m.a. hafi aðalslagæð í sundur, hann hafi rifbeinsbrotnað auk þess sem hann hafi hlotið hryggskemmdir.

Þriðji vélhjólakappinn, sem lögreglan leitaði að í tengslum við málið, gaf sig fram í gær, en í myndskeiðinu sést hann brjóta hliðarrúðu jeppans. 

Drógu ökumann jeppans út úr bifreiðinni og börðu hann

Í myndskeiðinu sést þegar vélhjólamennirnir ná að króa ökumanninn af og þá gerir einn þeirra tilraun til að komast inn í bílinn með því að opna dyr ökumannsins. Við það brunar Lien aftur af stað. 

Eftir að hafa ekið töluverðan spöl eftir hraðbrautinni þá beygir Lien inn hliðargötu í Manhattan. Þar lendir hann í umferðarteppu og þá ráðast nokkrir vélhjólamenn á bílinn, brjóta rúður og þeir ná að draga ökumanninn úr bifreiðinni. Þeir létu síðan höggin dynja á honum fyrir framan eiginkonuna og barnið, en það atvik sést hins vegar ekki á upptökunni.

Lien var síðan fluttur á sjúkrahús en hann hlaut m.a. skurði í andliti og á bringunni. Áverkarnir voru hins vegar ekki alvarlegir og var Lien útskrifaður skömmu síðar. 

Rannsókn lögreglunnar stendur enn yfir og segist hún vera að reyna að hafa uppi á um 30 vélhjólaökumönnum. 

Domenech, frænka vélhjólamannsins sem slasaðist alvarlega segist vera reið yfir því að Lien fái mesta athygli en ekki Mieses, sem sé giftur og eigi 10 og 14 ára gömul börn. 

„Þetta er maður sem á Range Rover og lifir í lúxus - og er það í lagi að hann geri eitthvað við einhvern sem ekur vélhjóli eða er með húðflúr,“ spurði hún.

Hún segist ennfremur ekki vita hvort það eigi að ákæra ökumanninn. 

„Menn eiga hins vegar að viðurkenna það að það sem hann gerði var rangt,“ bætti hún við. „Hann stóð frammi fyrir mörgum valkostum en hann kaus að fara fram með ofbeldi.“

Lögreglan skoðar málið heildstætt

Lögreglustjórinn var spurður hvort það hefði verið lagalega rétt af Lienað yfirgefa vettvang slyssins.

„Það fer alveg eftir aðstæðum,“ svaraði Kelly.

„Það fer eftir því hvort verið sé að ráðast á ökutækið þitt eður ei, hvort þú telur að verið sé að ráðast á þig eður ei, hvort eiginkonan þín og barn séu í bílnum eður ei. Þú verður að skoða atvikið heildstætt og það erum við að gera,“ sagði hann. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert