Einn ráðgjafa Rússlandsforseta Vladimírs Pútíns, Dimitrí Peskov, lét í vikunni ummæli falla sem voru ekki til þess fallin að vekja kátínu Breta. Hann sagði Bretland vera litla eyju sem enginn á alþjóðasviðinu taki mark á.
Ummælin féllu í grýttan jarðveg Breta og þá sérstaklega leiðtoga í Íhaldsflokknum, en þeir hafa nú á síðustu dögum keppst við að svara ásökununum. David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, hélt í dag ræðu á landsfundi íhaldsmanna og vék hann þar að afrekum Breta. Ekki aðeins sköpuðu Bretar „Magna carta“, börðust gegn þrælahaldi og gáfu konum kosningarétt, heldur mætti einnig benda á það hvaða tónlist fólk hlustar á í dag. Hvaða knattspyrnudeild er vinsælust, hvaða háskólar eru vinsælastir? Svo mætti einnig benda á að mest selda tegundin af vodka í heiminum er ekki rússnesk, heldur bresk!“ sagði Cameron við mikið lófatak.
Áður hafði einnig Boris Johnson, borgarstjóri Lundúna, látið sig varða ummælin. Hann sagði í ræðu sinni á landsfundi íhaldsmanna: Lundúnir búa yfir svo mörgum grænum svæðum að við framleiðum tvær milljónir gúrkna á ári. Hafðu þetta, Pútín! Boris hélt svo áfram á meðan hlátrasköllin ómuðu um salinn: Rússar höfðu svo mikinn áhuga á enska boltanum að þeir keyptu knattspyrnufélagið Chelsea. Ég vil samt ekki rífast of mikið við Rússana, ég vil ekki fá plútóníum-eitrun af sushí-inu mínu,“ en þar var hann að vísa í morðið á rússneska njósnaranum Alexander Litvínenkó.