Christiane F. er enn á lífi

Christiane Felscherinow, aka Christiane F,
Christiane Felscherinow, aka Christiane F, AFP

Það stóðu margir á öndinni við lestur á bókinni Dýragarðsbörnin (Wir Kinder vom Bahnhof Zoo) um hina þrettán ára gömlu Christiane F. sem sprautaði sig með heróíni og seldi sig fyrir dóp á götum Vestur-Berlínar á áttunda áratug síðustu aldar. Það kemur kannski ýmsum sem lásu bókina á sínum tíma á óvart - að Christiane F. er enn á lífi.

Yfir fjórar milljónir eintaka seldust af bókinni og samnefnd kvikmynd vakti einnig mikla athygli þar sem sem David Bowie var meðal þeirra sem komu fram.

En þrátt fyrir skelfilega æsku er Christiane F. enn á lífi og á fimmtudag kemur út ný bók um hana. Verður bókin kynnt á bókamessunni í Frankfurt. „Ég er enn ekki dauð,“ segir Christiane F., sem heitir fullu nafni, Christiane Felscherinow, samkvæmt frétt AFP fréttastofunnar.

Hún segir að fáa hafi grunað það á sínum tíma að hún ætti eftir að ná 51 árs aldri en nýja bókin nefnist Christiane F. - Mein Zweites Leben" (Christiane F - mitt annað líf).

Bar vitni gegn barnaníðingi og sagði sögu sína í kjölfarið

Felscherinow ólst upp í háhýsahverfi í vesturhluta Berlínar hjá ofbeldisfullum föður og móður sem sá fyrir heimilinu. Þegar hún var tólf ára prófaði hún hass í fyrsta skipti en þrettán ára var hún farin að selja sig fyrir heróín og stunda skemmtistaði. Hún hélt til, ásamt fleiri ungmennum sem einnig voru fíklar, á lestarstöðinni Bahnhof Zoo og horfði upp á vini sína deyja af völdum eiturlyfja. Að lokum var hún send til ömmu sinnar upp í sveit til þess að berjast við að losna undan áþján fíknarinnar sem var að draga hana til dauða.

Það var blaðamaður hjá vikuritinu Stern sem uppgötvaði Christiane F. þar sem hún bar vitni í máli gegn barnaníðingi. Í þrjá mánuði hittust þau reglulega og hann skrifaði margar greinar í Stern um hana. Árið 1978 gáfu þau saman út bókina Wir Kinder vom Bahnhof Zoo.

Saga hennar veitti fólki sýn inn í heim ungs fólks sem helst enginn vill vita af og enn síður að eiga börn sem hafna í þeim heimi. En þrátt fyrir óhugnaðinn var samúð lesandans með ungu stúlkunni með flottu hárgreiðsluna og elskaði tónlistarmanninn David Bowie. Árið 1981 kom bíómyndin út sem byggði á bókinni og þar hljómaði tónlist Bowie. Christiane F. var orðin frægasti fíkill Þýskalands.

Rússíbanareiðinni hvergi nærri lokið

Sem ung kona kom hún fram í ótal sjónvarpsþáttum og var kynnt fyrir hinu ljúfa lífi fræga fólksins. En saga hennar endaði ekki þar líkt og fram kemur í nýju bókinni. Því hún féll og byrjaði að nota kókaín sem síðar endaði með heróíni beint í æð. Rússíbanareið Christiane F. var hafin á ný með fíknina að leiðarljósi. Hún bjó á grískri eyju sem hún segir að hafi verið sín bestu ár en þar varð hún ástfangin. Árið 1996 eignaðist hún son og það breytti öllu. Lítil vera sem þurfti á henni að halda. Ekkert annað skipti máli segir hún. En beina brautin var þyrnum stráð og árið 2008 var sonur hennar sendur í fóstur. Tveimur árum síðar var henni veitt forræðið yfir drengnum á ný en ákvað að hann yrði áfram hjá fósturforeldrum sínum.

Þrátt fyrir að nota ekki heróín lengur þá er fíknin ekki farin og í tæplega tuttugu ár hefur hún fengið meþadon á meðferðarstofnun og hún er með lifrarbólgu C líkt og margir sprautufíklar. En hún er á lífi og hikar ekki við að segja sögu sína. Sem er engin hetjusaga heldur áratugalöng saga baráttu við fíkniefnadjöfulinn.

Enn í eiturlyfjavanda

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert