Réðust gegn hryðjuverkamönnum

John Kerry ræddi við blaðamenn um aðgerðirnar í gær.
John Kerry ræddi við blaðamenn um aðgerðirnar í gær. AFP

Bandaríkjaher gerði í gær atlögu gegn tveimur hátt settum hryðjuverkamönnum í Afríku. Í Sómalíu var einn leiðtoga al-Shabab-hreyfingarinnar líklega drepinn og í Líbíu var liðsmaður al-Qaeda tekinn höndum. John Kerry utanríkisráðherra segir að Bandaríkin muni aldrei hætta að elta uppi öfgamenn.

„Við vonumst til þess að þetta taki af allan vafa um það að Bandaríkin munu aldrei slá slöku við að draga þá til ábyrgðar sem standa að baki hryðjuverkum,“ sagði Kerry við blaðamenn á indónesísku eyjunni Balí eftir aðgerðirnar á laugardag.

Al-Qaeda-maðurin Abu Anas al-Libi er talinn vera heilinn á bak við sprengjuárásirnar á sendiráð Bandaríkjanna í Keníu og Tansaníu árið 1998. Hann var í gær handtekinn í Líbíu.

Önnur aðgerð, í sómalska strandbænum Barawe, endaði með skotbardaga milli sérsveitar Bandaríkjahers og liðsmanna al-Shabab samtakanna. Bandaríkjaher segir ljóst að margir al-Shabab-manna hafi fallið. New York Times sagði í gærkvöld að þar á meðal væri hátt settur foringi, sem aðgerðin beindist gegn og stóð til að handtaka. Í dag segir Bandaríkjaher þó að ekki hafi verið unnt að staðfesta fyrir víst að hann hafi verið skotinn til bana.

„Við munum halda áfram að láta réttlætið ná fram að ganga eftir þeim leiðum sem eru við hæfi, í von um að á endanum muni voðaverk sem þessi gegn fólki um allan heim taka enda,“ sagði Kerry.

Drápu einn foringja al-Shabab

Abu Anas al-Libi var meðal eftirlýstra mann af hálfu FBI …
Abu Anas al-Libi var meðal eftirlýstra mann af hálfu FBI vegna sprengjuárása á sendiráð 1998. Hann var handtekinn í gær. AFP PHOTO / FBI
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert