Lögmenn þrjátíu liðsmanna Grænfriðunga sem handteknir voru þegar þeir reyndu að klifra upp á rússneskan olíuborpall á Norður-Íshafi hyggjast leitast til Mannréttindadómstóls Evrópu vegna þess hversu lélegur aðbúnaður þeirra er í haldi Rússa.
Aðgerðasinnarnir voru handteknir í síðasta mánuði og hafa verið ákærðir fyrir sjórán. Það þýðir að þeirra gæti beðið allt að 15 ára fangelsisdómur. Þeir voru að mótmæla olíuborun á svæðinu.
Grænfriðungunum var dreift í nokkur fangelsi í Murmansk. Talsmenn þeirra hafa greint frá því að sumum mannanna sé haldið í einangrun í 23 klukkustundir á sólarhring á meðan öðrum er haldið í svo köldum fangaklefum að þeir líkist frekar frystigeymslum.