Maður sem lýst er sem vampíru hefur verið handtekinn á Papúa Nýju-Gíneu en hann er grunaður um að hafa myrt dóttur sína með því að bíta hana á barkann, borðað hluta líkama hennar og drukkið blóð hennar.
Að sögn lögreglu átti atvikið sér stað á miðvikudag skammt frá Lae. Stúlkan, sem var þriggja ára gömul, var ásamt móður sinni í heimsókn hjá föður sínum. Hann greip stúlkuna skyndilega og hljóp með hana inn í skóglendi þar skammt frá. Svo virðist sem hann hafi síðan bitið hana á háls og borðað og drukkið blóð hennar.
Tveir drengir sem voru að klifra í kókoshnetupálmum þar skammt frá sáu til mannætunnar og hlupu eftir hjálp. Að sögn lögreglu hafði vera drengjanna engin áhrif á mannætuna annað en hann fór að hlægja og hélt áfram að borða dóttur sína.
Þegar fólk kom á staðinn á maðurinn að hafa kastað líki dóttur sinnar frá sér og hlaupið á brott en var handtekinn á flóttanum.
Svarti galdur, mannát og galdrar koma alltaf upp reglulega á Papúa Nýju-Gíneu.
Á síðasta ári handtók lögreglan á annan tug sem tengdust mannáti. Var hópurinn grunaður um að hafa myrt sjö, etið heila þeirra hráa og soðið súpu úr getnaðarlimum þeirra.