Hvíta ekkjan tók þátt í árásinni

Vegabréf Samönthu Lewthwaite.
Vegabréf Samönthu Lewthwaite. AFP

Í skýrslu kenísku leyniþjónustunnar kemur fram að Samantha Lewthwaite, oft kölluð Hvíta ekkjan, var lykilmanneskja í undirbúningi Shabab-hryðjuverkasamtakanna í árásinni á verslunarmiðstöðina í Naíróbí. Samtökin höfðu skipulagt fleiri árásir víða um Kenía.

Þetta kemur fram í frétt Sky-sjónvarpsstöðvarinnar en skýrslan hefur ekki verið gerð opinber.

Sky hefur einnig fengið aðgang að dagbókum Lewthwaite en í þeim lýsir hún m.a. metnaði sínum fyrir hönd barna sinna og ást sinni á eiginmanninum sem nú er látinn.

Í skýrslunni er fjallað ítarlega um hvernig Shabab-samtökin starfa í mörgum Afríkulöndum sem og í Jemen og Pakistan. Fram kemur að öflugust sé starfsemin í Kenía, aðallega í Naíróbí og Mombasa.

Þá eru yfirvöld í Kenía einnig gagnrýnd þar sem skýr merki um undirbúning árásarinnar á Westgate-verslunarmiðstöðina hafi komið fram fyrir átta mánuðum.

Fram kemur að hryðjuverkahópurinn hafi undirbúið árásir á keníska þingið og skrifstofur Sameinuðu þjóðanna í Naíróbí. Segir að Lewthwaite hafi búið á afskekktu setri í nágrenni Mombasa er árásirnar voru undirbúnar.

Lögreglan gerði húsleit á setrinu en Lewthwaite var ekki þar og ekki heldur fjögur börn hennar. Lögreglan fann hins vegar skotfæri og dagbók á staðnum. Talið er að dagbókin innihaldi drög að bók.

Þar lýsir hún því m.a. að tvo barna hennar vilji líkjast föður sínum, en hann var einn þeirra sem stóð að baki hryðjuverkaárásinni í London í júlí árið 2005. Fimmtíu létust í árásinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert