Óeirðir vegna morðs á ungum manni

Þúsundir tóku þátt í óeirðum í Moskvu höfuðborg Rússlands í dag í kjölfar morðs sem talið er að hafi verið framið af innflytjanda til landsins. Dyr og gluggar í verslanamiðstöð í borginni voru brotnir og ráðist var á öryggisverði.

Fram kemur í frétt AFP að fólkið hafi kallað „Rússland fyrir Rússa“ og einnig ráðist á vöruhús í nágrenninu hvar margir innflytjendur voru við störf. Flestir þátttakendur í óeirðunum voru ungir að árum og þar á meðal voru öfgasinnaðir þjóðernissinnar. Þeir köstuðu flöskum að lögreglumönnum sem mættu á staðinn í tíu rútum til þess að berja niður óeirðirnar. Um 200 manns voru handteknir.

Óeirðirnar brutust út vegna morðs sem framið var eins og fyrr segir en það gerðist síðastliðinn fimmtudag. 25 ára gamall karlmaður var stunginn til bana að unnustu hans viðstaddri. Morðinginn flúði af vettvangi en öryggismyndavélar náðu myndum af honum og er talið að hann sé frá einhverju ríki í Mið-Asíu eða Kákasusríki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert