Ber öll merki skipulags mannráns

Madeleine McCann var þriggja ára er hún hvarf.
Madeleine McCann var þriggja ára er hún hvarf. AFP

Breska lögreglan segir að hvarf Madeleine McCann beri öll merki þess að hafa verið fyrirfram skipulagt mannrán en stúlkan hvarf 3. maí árið 2007 í Portúgal. Kom þetta fram í sjónvarpsþættinum Crimewatch sem sýndur var á BBC í kvöld en í honum leitar lögreglan eftir upplýsingum frá sjónvarpsáhorfendum.

Lögreglumenn birtu nýverið tölvuteikningar af karlmanni sem leitað er að í tengslum við hvarf Madeleine en maðurinn sást halda á barni og ganga í átt að ströndinni kvöldið sem hún hvarf. Um er að ræða hvítan karlmann á aldrinum 20 til 40 ára en myndirnar eru gerðar eftir upplýsingum vitna sem sáu til mannsins þar sem hann var á hótelinu sem McCann-fjölskyldan dvaldi á. 

Andy Redwood, sem fer fyrir rannsókninni, segir vitni hafa séð nokkra menn á svæðinu daginn sem Madeleine hvarf. Ein kenningin er sú að mennirnir hafi verið að fylgjast með og kanna svæðið fyrir hvarf stúlkunnar.

Redwood segir enn of snemmt að fullyrða um að maðurinn sem lögreglan lýsir eftir sé sá sami og tók Madeleine.

Í upphafi sáu lögregluyfirvöld í Portúgal um rannsóknina sem lauk formlega árið 2008. Lögreglumenn Scotland Yard í Bretlandi fóru hins vegar yfir málið í maí árið 2011 og hófst formleg rannsókn á ný í júlí á þessu ári.

Foreldrar Madeleine skildu við hana og fóru á veitingastað klukkan hálfníu að kvöldi 3. maí og var Madeleine þá í íbúð ásamt bróður sínum og systur. Vitað er að Madeleine var enn á sama stað laust eftir klukkan níu en klukkan tíu lét móðir hennar vita um hvarfið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert