Albanskur fangi braut sér leið út norsku fangelsi í morgun en til verksins notaði hann smjörhníf. Maðurinn smeygði sér út um gatið, klifraði yfir girðingu og er hann nú týndur. Fanginn verður að teljast þrautseigur, en múrsteinninn var um hálfur metri á þykkt. Norski fréttamiðillinn VG greinir frá þessu.
Að sögn fangelsisstjóra á svona ekki að geta gerst í öryggisfangelsi sem þessu. Myndir frá öryggismyndavélum fangelsisins sýna manninn fara í gegnum veginn, klifra yfir girðingu og hverfa á braut. Hvarf mannsins uppgötvaðist ekki fyrr en nokkrum klukkustundum síðar. Fanginn borðaði allar máltíðir dagsins í klefa sínum og hafði því leyfi til að hafa hnífinn.
Ekki er vitað hversu lengi maðurinn var að grafa sig út úr klefanum, en reglulegt eftirlit er með föngunum og því er talið að verkið hafi að mestu verið unnið í nótt.
Maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því í desember á síðasta ári. Hann er ekki talinn vera hættulegur en er nú eftirlýstur af lögreglunni, bæði í innanlands og á heimsvísu, vegna stroksins.
Rúmlega fimm ár eru síðan svipað atvik átti sér stað í fangelsinu, en 12. ágúst 2008 gróf fangi sig í gegnum vegg og notaði til þess herðatré.