Liðsmenn tveggja stærstu flokka Frakklands klóra sér nú í höfðinu eftir að Front National (Front National) skaut þeim ref fyrir rass í sveitarstjórnarkosningum í gær.
Er talað um að Sósíalistaflokkurinn og hægriflokkurinn UMP hafi verið niðurlægðir í gær er Laurent Lopez, frambjóðandi FN, fékk 53,9% atkvæða í kosningum í Brignoles. Kosið var á milli hans og frambjóðanda UMP en forysta sósíalista hafði hvatt kjósendur til þess að kjósa frambjóðanda UMP.
Telja stjórnmálaskýrendur að þetta geti bent til þess að flokkarnir tveir verði niðurlægðir í sveitarstjórnarkosningum á næsta ári sem og í kosningu til Evrópuþingsins. Í Frakklandi hefur atvinnuleysi aldrei mælst jafnmikið, skattar hafa verið hækkaðir og glæpum hefur fjölgað jafnt og þétt.
Samkvæmt nýlegri skoðanakönnun gæti FN fengið allt að 24% fylgi í Evrópuþingskosningunum.