Lögreglan í Flórída hefur handtekið tvær stúlkur, tólf og fjórtán ára, en þær hafa verið ákærðar fyrir að leggja tólf ára stúlku í einelti. Stúlkan sem fyrir eineltinu varð svipti sig lífi í síðasta mánuði með því að stökkva fram af turni yfirgefinnar sementsverksmiðju.
Lögreglustjórinn Grady Judd sagði á blaðamannafundi í dag að önnur stúlknanna sem ákærðar hafa verið í málinu, hafi m.a. skrifað á netið að stúlkan ætti að „drekka klór og drepast“.
Rebecca Sedwick lést 9. september. Hún varð fyrir grófu einelti um fimmtán stúlkna sem létu hana ekki í friði mánuðum saman með því að senda henni skilaboð á netinu og í símann. Hald var lagt á tölvur og síma stúlknanna við rannsókn málsins, að því er fram kemur í frétt AP-fréttastofunnar um málið.
Stúlkurnar tvær voru handteknar aðfaranótt mánudags og ákærðar fyrir glæpsamlega áreitni.
Verði þær fundnar sekar er ekki víst hversu langan dóm þær hljóta en fái þær dóm munu þær afplána í unglingafangelsi. „Við verðum að breyta hegðun þessara barna,“ sagði lögreglustjórinn.
Stúlkurnar tvær eru nú í stofufangelsi á heimilum sínum.
Málavextir eru þeir að fyrir nokkrum mánuðum hafði eldri stúlkan farið að hitta strák sem fórnarlambið Rebecca hafði áður verið í sambandi við. „Hún var ekki sátt við það og fór að áreita og kvelja Rebeccu,“ sagði lögreglustjórinn.
Hann segir að stúlkurnar tvær hafi verið höfuðpaurar í eineltinu en hugsanlegt sé að fleiri verði ákærðar.
Það sem varð til þess að lögreglan handtók stúlkurnar var að önnur þeirra skrifaði eftirfarandi á Facebook-síðu sína: Já, ég veit, ég lagði REBECCU í einelti og hún drap sig EN MÉR ER DRULLUSAMA“. Stúlkan neitar að hafa skrifað færsluna.
Yngri stúlkan hefur sýnt iðrun og hefur viðurkennt að hafa áreitt Rebeccu.
Judd lögreglustjóri segir að lögreglan hafi ákveðið að handtaka stúlkurnar þar sem hún hafi óttast að þær myndu finna sér nýtt fórnarlamb til að áreita.
Hann segir að foreldrar þeirra hafi ekki verið samvinnuþýðir. Í dag birti hann myndir af stúlkunum tveimur, sem er mjög óvenjulegt þar sem þær eru undir lögaldri.
Faðir eldri stúlkunnar segir að ekkert sé til í ásökununum gagnvart dóttur sinni.
„Dóttir mín er góð stúlka og ég er handviss um að það sem þeir eru að segja um hana er ekki satt.“
Móðir Rebeccu sagði í viðtali við WTSP í síðasta mánuði að dóttir hennar hefði framið sjálfsvíg í kjölfar eineltisins. Þá segir hún skólann ekki hafa gert nóg til að vernda hana.
„Þær sögðu henni að hún væri ljót, heimsk, að enginn kynni við hana og sögðu henni að drepa sig,“ sagði móðirin.
Rebecca strauk að heiman í nóvember á síðasta ári og var síðar lögð inn á sjúkrahús þar sem hún hafði skaðað sjálfa sig. Hún skipti síðar um skóla en eineltið hélt áfram á netinu.
Judd lögreglustjóri segir að ýmis merki hafi verið um að Rebecca væri í sjálfsvígshættu.
Í Flórída eru í gildi lög gegn einelti. Þau heita eftir Jeffrey Johnson, dreng sem svipti sig lífi fimmtán ára gamall eftir að hafa verið lagður í einelti á netinu. Samkvæmt lögunum eru það skólarnir sem ákvarða refsingu þeirra sem leggja aðra í einelti en einnig er samkvæmt þeim hægt að fara með eineltismál fyrir dómstóla eins og hverja aðra glæpi.