Greiðslufall blasir við ríkissjóði

Bandaríska þingið, Capitol Hill
Bandaríska þingið, Capitol Hill AFP

Greiðslufall blasir við ríkissjóði Bandaríkjanna en á morgun getur ríkissjóður ekki lengur staðið við skuldbindingar sínar. Miklar vonir voru bundnar við að samkomulag myndi nást í gær en ekkert varð að því.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hafnaði í gærkvöldi tillögu fulltrúadeildar Bandaríkjaþings sem fól í sér framlengingu á skuldaþaki og að ríkisstofnunum sem var lokað um mánaðamótin yrðu opnaðar á ný.

Skuldaþak bandaríska ríkisins stendur nú í 16,7 billjónum Bandaríkjadala og ef það verður ekki hækkað innan sólarhrings getur ríkið ekki greitt af lánum sínum og einungis treyst á reiðufé til þess að standa við skuldbindingar sínar.

Stjórnmálamenn, bankamenn og hagfræðingar hafa varað við því að ef verður þá blasi við efnahagslegt hrun víða um heim. 

Öldungadeildin, þar sem demókratar eru í meirihluta, tók völdin í sínar hendur í gærkvöldi þar sem unnið var að samkomulagi milli flokkanna tveggja, demókrata og repúblikana, þar sem samið er um hækkun skuldaþaksins til 7. febrúar og fjármögnun ríkisins fram í miðjan janúar.

Samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins er talið að Harry Reid, leiðtogi demókrata í öldungadeildinni og starfsbróðir hans í Repúblikanaflokknum, Mitch McConnell, muni kynna tillögurnar fyrir félögum sínum í dag.

En þrátt fyrir að samkomulag náist innan öldungadeildarinnar er öldungis óljóst hvort samkomulag náist innan fulltrúardeildarinnar þar sem repúblikanar eru í meirihluta. Eins hvort það náist að koma samkomulaginu í gegn fyrir morgundaginn.

Barbara Mikulski, þingmaður demókrata í öldungadeildinni varar félaga sína við því að Bandaríkin séu einungis klukkustundum frá því að vera þjóð í greiðslufalli sem ekki greiddi reikninga sína, skuldir sínar við eigin þjóð og aðra lánadrottna.

Ef Bandaríkin geta ekki staðið við skuldbindingar sínar þá gæti það þýtt að Kínverjar myndu horfa annað með fjárfestingar sínar en þeir hafa keypt gríðarlegt magn bandarískra ríkisskuldabréfa.

Greiðslufall myndi lækka virði dollaraeigna kínverska ríkisins og áhrifin af því væru víðtæk á hagkerfi heimsins enda um tvö stærstu hagkerfi heims að ræða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert