Hún er aðeins sautján ára og frá Essex á Englandi. Faðir hennar er leigubílstjóri og móðirin kennari. Og greindarvísitala hennar er hærri en Alberts Einsteins. Hún fékk 161 stig á Mensa prófinu, segir í breska dagblaðinu Evening Standard.
Unglingsstúlkan Lauren Marbe hefur áhuga á flestu því sama og jafnaldrarnir. Hún smyr sig með brúnkukremi til að fá „sólbrúnku“ og setur ljósar strípur í hárið. Hún horfir á raunveruleikaþætti og skemmtir sér með vinum sínum.
Í næsta mánuði verður hún kynnt sérstaklega á dansleik í París. Það er Bílaklúbbur Frakklands sem skipuleggur dansleikinn sem er innblásinn af veisluhöldum síðustu aldar þar sem ungar hefðarkonur voru kynntar er þær fullorðnuðust. Í París verða vissulega nokkrar hefðarkonur nútímans, s.s. Amelia Windsor, dóttir hertogans af Kent og Kyra Kennedy, frænka John F. Kennedy.
Marbe hefur mestar áhyggjur af því að geta ekki talað nógu góða frönsku við veislugestina, „en ég hef aldrei verið jafn spennt fyrir einum hlut!“