Höfnuðu sæti í öryggisráðinu

Frá fundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í New York.
Frá fundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í New York. AFP

Sádi-Arabar höfnuðu í dag tímabundnu sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Þetta hefur aldrei gerst áður enda er jafnan hörð samkeppni um að vera hleypt að borðinu. Stjórnvöld í Riyadh fordæma tvískinnung og athafnaleysi öryggisráðsins gagnvart málefnum Sýrlands og Palestínu.

„Þetta var algjörlega óvænt. Við þurfum að fletta upp í sögubókum ráðsins til að finna fordæmi, en það er ekkert,“ hefur Afp eftir diplómat við öryggisráðið, sem ekki vildi láta nafns síns getið.

„Kosningabaráttan til að tryggja sér sæti krefst yfirleitt margra ára undirbúnings, svo þessi yfirlýsing kemur alveg aftan að okkur.“

Hugsanlega kosið aftur

Sádi-Arabía var meðal fimm þjóða sem hlaut kjör til tveggja ára setu í öryggisáði SÞ, þar sem 15 ríki hafa sæti í senn. Hin fjögur ríkin sem hlutu brautargengi þetta sinnið voru Tsjad, Síle, Litháen og Nígería.

Hugsanlegt er að kosið verði aftur standi Sádi-Arabar við það að hafna sætinu, en annar diplómat sem Afp ræðir nafnlaust við segir hugsanlegt að hægt verði að telja þeim hughvarf.

„Það var ekkert umdeilanlegt við atkvæðagreiðsluna. En ríkisstjórn [Sádi-Arabíu] hafði gefið það skýrt til kynna á síðustu vikum að hún hefði áhyggjur af málefnum Sýrlands og Palestínu,“ segir diplómatinn.

Þetta er í fyrsta sinn sem Sádi-Arabía fær sæti í öryggisráðinu. Í yfirlýsingu frá utanríkisráðuneyti landsins segir að „verkferlar og tvískinnungur öryggisráðsins hindri það í að framfylgja skyldum sínum og axla ábyrgð við að tryggja heimsfrið“.

Þar af leiði að Sádi-Arabía hefur ekki val um annað en að hafna aðild að öryggisráðinu þangað til það hefur verið betrumbætt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert