Lokuðu síðunni vegna skapaháranna

Myndin sem Petra Collins birti á Instagram og varð til …
Myndin sem Petra Collins birti á Instagram og varð til þess að síðu hennar var lokað.

Instagram lokaði síðu listakonunnar Petru Collins. Ástæðan? Hún birti mynd af sér í bikiníbuxum þar sem sást í skapahárin.

Í pistli sem Collins skrifar um málið á vef Huffington Post segir hún frá atvikinu. „Ég gerði ekkert sem braut gegn reglum um notkun Instagram. Engin nekt, ekkert ofbeldi, klám, neitt ólöglegt eða andstyggilegt. En það sem ég var með var mynd af líkama MÍNUM sem samræmist ekki viðmiðum samfélagsins um kvenleika. Myndin sem ég birti er frá mitti og niður, ég var í bikiníbuxum og bakgrunnurinn var glitrandi. Ólíkt þeim 5.883.628 (Þetta er sá fjöldi mynda sem merktar eru #bikini) baðfatamyndum sem birtar eru á Instagram (sjá hér og hér) sýndi mín óbreyttan líkama minn - órakaða bikinílínu.“

Collins vekur athygli á því að fólk sé orðið svo vant að sjá fegraðar myndir af líkömum fólks að það kunni því illa að sjá myndir af því hvernig fólk raunverulega lítur út.

Viðbrögð fólks við myndinni hafa verið misjöfn. Sumir segja hana „ógeðslega“ og „hræðilega“.

Collins biður þetta fólk að velta fyrir sér af hverju því líði þannig að sjá líkama hennar. „Ég vil að þið virkilega skoðið af hverju myndin vakti þessi viðbrögð hjá ykkur, af hverju hún gekk fram af ykkur, af hverju þið hafið ekkert umburðarlyndi gagnvart henni. Vonandi er mögulegt að þið komist að því að það eruð ekki endilega þið sem eruð að hugsa svona heldur samfélagið að segja að þið eigið að hugsa með þessu hætti.“

Þá segist hún vona að ungar stúlkur haldi áfram að vera þær sjálfar - sama hvað aðrir reyni að segja þeim.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert