„Það var ekkert mannrán“

Ráðgátan um litlu, ljóshærðu stúlkuna sem fannst í hverfi rómafólks á Grikklandi, tók óvænta stefnu í dag er lögmaður parsins sem stúlkan fannst hjá sagði móður hennar hafa gefið hana við fæðingu.

Talið er að litla stúlkan sé fjögurra ára. Hún er ljóshærð og græneygð og vakti athygli lögreglumanna sem komu inn í hverfið í leit að skotvopnum og eiturlyfjum. Parið gat ekki sýnt neina pappíra til að sanna að stúlkan væri þeirra. DNA-rannsókn leiddi ennfremur í ljós að stúlkan var ekkert skyld parinu.

Parið var handtekið á miðvikudag. Lögmaður parsins, Marietta Palavra, segir í dag í samtali við AFP-fréttastofuna að líffræðileg móðir stúlkunnar hafi gefið parinu hana árið 2009. Hún hafi ekki getað séð fyrir henni. 

„Það var ekkert mannrán, ekkert rán, ekkert mansal,“ segir annar lögmaður parsins, Konstantinos Katsavos. „Þau keyptu ekki barnið.“

Gríska lögreglan hefur leitað aðstoðar Interpol við að finna móður barnsins. Sé saga hjónanna sönn, vill lögreglan engu að síður fá hana staðfesta hjá líffræðilegri móður hennar.

Lögfræðingar parsins vona að ættingjar stúlkunnar finnist áður en parið verður leitt fyrir dómara á mánudag og hugsanlega ákært fyrir mannrán.

Lögreglan hefur þó varann á sér því parið hefur ítrekað breytt frásögn sinni á því hvernig barnið komst í  þeirra umsjón.

Fjölmiðlar hafa sagt frá því að parið hafi m.a. sagst hafa fundið hana fyrir utan stórmarkað en einnig að búlgörsk móðir hafi gefið þeim barn sitt.

Lögmenn parsins segja þau ekki hafa gefið opinberan vitnisburð ennþá.

Fréttir mbl.is:

Enn bólar ekkert á foreldrunum

Leita að foreldrum ungrar stúlku

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert