Dómstóll í Mílanóborg hefur slegið því föstu að Silvio Berlusconi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, megi ekki gegna opinberu embætti næstu tvö árin. Bannið er til komið vegna dóms sem hann hlaut á dögunum vegna skattsvika.
Áður en bannið tekur gildi verður ítalska þingið að staðfesta úrskurð dómstólsins. Afleiðingar bannsins gætu orðið miklar fyrir Berlusconi, en ef þingið staðfestir úrskurðinn missir hann þingsæti sitt. Þar með yrði þinghelgi hans aflétt og sækja mætti hann til saka í sakamálum með almennum hætti. Þingið mun að öllum líkindum kjósa um staðfestingu á úrskurðinum á næstu vikum.