Hvíta húsið: Öll ríki njósna

Hvíta húsið
Hvíta húsið AFP

Kveinstafir Frakka vegna nýrra ásakana um njósnir Þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna, NSA, fengu lítinn hljómgrunn meðal ráðamanna í Washington í dag. Frá Hvíta húsinu kom einfaldlega það svar að öll þjóðríki stundi njósnaaðgerðir.

Forsætisráðherra Frakklands, Jean-Marc Ayrault, sagðist fyrr í dag vera „í áfalli“ vegna fregna af því að Bandaríkjamenn hafi með leynd hlerað tugmilljónir símtala í Frakklandi, eins og dagblaðið Le Figaro greindi frá í dag. Frönsk stjórnvöld kröfðust skýringa og sagði Ayrault að engin réttlæting gæti fundist fyrir þessu framferði vinaþjóðar.

Hvíta húsið hefur ekki fengist til að ræða þessar tilteknu ásakanir. Caitlin Hayden, talskona NSA, segir að slíkar aðgerðir varði þjóðaröryggi og verði því ekki opinberaðar.

„Í samræmi við okkar stefnu tökum við það þó alveg skýrt fram að Bandaríkin safna gögnum erlendis, rétt eins og öll ríki gera.“

Hún minnti jafnframt á ræðu Baracks Obama hjá allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, um að Bandaríkin muni endurskoða með hvaða hætti slíkum upplýsingum sé safnað til að finna jafnvægi milli réttlætanlegra öryggisráðstafana og persónuverndarsjónarmiða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert