Sjö stjörnu lífsstíll Kim Jong-un

„Ef opnuð er flaska af tekíla, þá er það besta mögulega tegund af tekíla,“ segir Dennis Rodman, fyrrverandi körfuknattleikskappi, en hann lýsti 7 stjörnu lífsstíl Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu. „Sama hvað um ræðir, hann er með bestu útgáfuna af því.“

Rodman heimsótti vin sinn Kim í síðasta mánuði en þetta var önnur heimsókn Rodmans til Norður-Kóreu. Í viðtali við breska götublaðið The Sun lýsir Rodman hvernig Kim lifir lífi sínu í einangruðu landi sínu. Í stuttu máli segir Rodman að um sé að ræða 7 stjörnu lífsstíl með stanslausum kokteilboðum og góðu glensi á einkaeyju hans og lúxussnekkju.

„Hann er ávallt með fimmtíu til sextíu manns í kringum sig, venjulegt fólk sem drekkur hanastél og skemmtir sér allan daginn,“ segir Rodman sem dvaldi meðal annars í vikutíma á einkaeyju Kims. „Þetta var eins og fara til Havaí eða Íbísa, nema að hann er eini íbúinn á eyjunni.“ Þá nefnir hann tvö hundruð feta snekkju leiðtogans sem sé nærri lagi að kalla ferju fyrir einn.

Á sama tíma og Rodman lýsir lífsstíl Kims krefjast mannréttindasamtök þess að þrýstingur verði settur á stjórnvöld Norður-Kóreu. Samkvæmt skýrslu sem kynnt var suðurkóreska þinginu í byrjun þessa mánaðar vörðu stjórnvöld í Norður-Kóreu 645,8 milljónum Bandaríkjadala, jafnvirði 78 milljarða íslenskra króna, í lúxusvörur í fyrra.

Meðal þess sem flutt var inn fyrir stjórnvöld - og þá aðallega fyrir Kim - voru hágæða vín fyrir 30 milljónir Bandaríkjadala, rafmagnstæki fyrir 37 milljónir Bandaríkjadala og úr fyrir 8,2 milljónir Bandaríkjadala.

Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna gaf einnig út skýrslu í byrjun þessa mánaðar. Í henni kemur fram að 2,8 milljónir íbúa Norður-Kóreu búa við skert fæðuöryggi og eru í áhættuhóp fyrir komandi vetur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert