Ljóshærð stúlka sem talin er vera um sjö ára gömul fannst meðal róma-fólks í Dublin á Írlandi og hefur nú verið tekin úr þeirra umsjón. Í frétt Sky-sjónvarpsstöðvarinnar segir að lögreglan hafi farið inn á heimili fólksins og sótt stúlkuna eftir ábendingu sem barst frá almenningi. Félagsþjónustan sér nú um stúlkuna.
Borgarinn sem vakti athygli lögreglunnar á stúlkunni hafði séð til hennar með róma-fólks í borginni. Mál ljóshærðrar stúlku sem bjó meðal róma-fólks í Grikklandi hefur vakið mikla athygli. Foreldra hennar er nú leitað en parið sem hún bjó hjá hefur verið ákært fyrir mannrán.
Samkvæmt heimildum Sky er lögreglan í Dublin að yfirheyra parið sem stúlkan bjó hjá.
Írska blaðið Sunday World segir að parið sem stúlkan bjó hjá í Dublin hafi ekki getað sýnt fæðingarvottorð er lögreglan kom að skoða málið. Þau sögðu að stúlkan væri fædd á Coombe sjúkrahúsinu í Dublin en engar heimildir um slíkt fundust hjá sjúkrahúsinu.
Að tveimur tímum liðnum kom parið þó með fæðingarvottorð en lögreglan telur það ekki fullnægjandi.
Talið er að lögreglan muni fara fram á DNA-próf.