Franski heimspekingurinn Michel Serres vill að landar sínir grípi til róttækra aðgerða vegna þess sem hann kallar „vanhelgun móðurmálsins“. Fer hann fram á sniðgangi allar vörur sem auglýstar eru á ensku og sæki ekki kvikmyndahús þýði þau ekki titla kvikmynda yfir á frönsku.
Serres er meðlimur í Frönsku akademíunni en hún nýtur mikillar virðingar og þykir ákaflega íhaldssöm. Hún vakir yfir þróun franskrar tungu og reynir að varna því að erlend orð festist í málinu því til spillingar auk þess að gera sitt besta til vernda og auðga málið. Meðal annars Franska hefur akademían barist gegn orðum á borð við email (ísl. tölvubréf), blog (ísl. vefdagbók) og takeaway (ísl. matsölustaður sem selur mat til neyslu annars staðar).
Aðeins fáeinir mánuðir eru síðan stjórnvöld tilkynntu að heimilað yrði að kenna fleiri námskeið á ensku í frönskum háskólum. Voru ekki allir á eitt sáttir með þá ákvörðun enda margir Frakkar sem telja frönskuna eiga undir högg að sækja.
Einn af þeim er Michel Serres sem blöskraði hreinlega á dögunum og talar um innrás enskrar tungu. „Meiri ensku má sjá á auglýsingaspjöldum sem hanga á veggjum Toulouse-borgar en sjá mátti af þýsku á hernámsárunum. [...] Ég vil því biðja frönsku þjóðina að ganga með mér og grípa til aðgerða. Í hvert skipti sem vara er auglýst á ensku skal sniðganga hana, í hvert skipti sem titill kvikmyndar er ekki þýddur skal ekki stíga fæti inn fyrir dyr viðkomandi kvikmyndahúss,“ sagði Serres í viðtali við dagblaðið la Depeche du Midi.
Hann sagðist ennfremur að þegar fyrirtæki áttuðu sig á því að veltan minnkaði myndu þau breyta hegðun sinni og skipta yfir í frönsku á ný.