Bandaríski blaðamaðurinn Glenn Greenwald, sem starfar fyrir breska blaðið Guardian, segir að hann sé með gögn sem sýni að Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna (NSA) hafi stundað njósnir í Noregi.
Þetta segir hann í samtali við Dagbladet í Noregi. Hann segir að gögn sem uppljóstrarinn Edward Snowden komst yfir sýni að NSA hafi njósnað í Noregi. Hann segist á þessu stigi ekki reysta sér til að svara því hvort njósnirnar hafi beinst að einstaklingum eða fyrirtækjum í Noregi.
Greenwald segir að það sé gríðarleg vinna að fara í gegnum gögnin frá Snowden. Um sé að ræða þúsundir skjala. Þau séu brotin upp í hluta og það geti verið tæknilega erfitt að lesa úr þeim.
Guardian sagði frá því í vikunni að NSA hefði hlerað síma hjá 35 þjóðhöfðingjum víða um heim, m.a. leiðtogum Þýskalands, Brasilíu og Mexíkó. Greenwald vill ekki svara því hvort sími stjórnmálamanna í Noregi hafi verið hleraðir. Hann segist ekki hafa unnið með þau skjöl þar sem fram kemur símar hvaða þjóðhöfðingja voru hleraðir.
Talsmaður Angelu Merkel kanslara Þýskalands sagði í gærkvöldi að ákveðið hefði verið að yfirmenn þýsku leyniþjónustunnar færu til Washington í næstu viku til viðræðna við stjórnvöld í Bandaríkjunum um njósnir NSA í Þýskalandi.