Löngu áður en hleranamálið komst í hámæli var Angela Merkel, kanslari Þýskalands, þekkt fyrir að vera stöðugt með símann í höndunum við að senda símaskilaboð. Hún mun ekki hafa breytt símanotkun sinni þó að upplýst hafi verið að sími hennar hafi verið hleraður.
Þeir sem fylgjast með þingstörfum í Þýskalandi hafa tekið eftir að Merkel er stöðugt með símann í höndunum að senda símaskilaboð. Hún er sögð senda samþingmönnum sínum gjarnan skilaboð meðan þingfundur stendur yfir. Síðan lítur hún til þingmannanna til að sjá hvort þeir hafi fengið skilaboðin.
Símahleranir eru sérlega viðkvæmt mál í Þýskalandi í ljósi sögunnar. Líklega hafa hvergi í heiminum verið stundaðar hleranir og njósnir með jafnskipulögðum hætti og í A-Þýskalandi. Merkel ólst upp í A-Þýskalandi og þekkir því þessa sögu vel.
Í dag eru höfuðstöðvar Stasi í A-Berlín safn og þar er hægt að fræðast um þennan kafla í sögu Þýskalands.