Mótmæli og mannfall í Bangladess

Lögreglumenn í Bangladess eru sagðir hafa skotið stjórnarandstæðinga til bana.
Lögreglumenn í Bangladess eru sagðir hafa skotið stjórnarandstæðinga til bana. AFP

Að minnsta kosti þrír hafa látist í átökum sem brutust út í Bangladess í dag. Stjórnarandstæðingar í landinu hófu þriggja daga verkfall í dag, en markmið mótmælanna er að þvinga stjórnvöld til að segja af sér.

Átök brutust út á milli mótmælenda og lögreglu á nokkrum svæðum en einnig kom til átaka á milli mótmælenda og stuðningsmanna stjórnvalda á öðrum svæðum, að því er fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins.

Stjórnarandstaðan segir að Sheikh Hasina, forsætisráðherra landsins, verði að láta stjórnina í hendur hlutlausri bráðabirgðastjórn sem muni hafa yfirumsjón með þingkosningunum, sem eiga að fara fram í janúar. 

Hasina er þeim algjörlega ósammála og vill mynda samsteypustjórn með öllum flokkum. 

Fregnir af mótmælum bárust fyrst frá Faridpur-héraði, sem er um 130 km vestur af höfuðborginni Dhaka. Lögreglan segist hafa neyðst til að hefja skothríð til að verja sig gegn mótmælendum sem köstuðu grjóti og lokuðu vegi.

Mótmælendur segja að lögreglan hafi m.a. skotið 22 ára gamlan stjórnarandstæðing til bana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert