Obama upplýstur um símhleranir árið 2010

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, eigar …
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, eigar ýmislegt eftir órætt. AFP

Barack Obama Bandaríkjaforseti var árið 2010 upplýstur um að bandaríska leyniþjónustan væri að hlera farsíma Angelu Merkel Þýskalandskanslara. Þetta kemur fram í þýska blaðinu Bild am Sonntag. Í gær greindi Der Spiegel frá því að sími Merkels hafi verið hleraður í 11 ár, eða frá 2002.

Bild am Sonntag hefur í dag eftir heimildarmönnum innan bandarísku leyniþjónustunnar að Keith Alexander, forstjóri Þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna (NSA), hafi upplýst Obama um hleranirnar fyrir þremur árum. 

„Obama stöðvaði ekki aðgerðina heldur lét hana halda áfram,“ hefur dagblaðið eftir hátt settum starfsmanni NSA. 

Der Spiegel vísaði í leyniskjöl frá NSA þar sem fram kom að síminn hefði verið hleraður frá árinu 2002 og að leyniþjónustan hefði enn verið að leggja við hlustir þegar Obama kom í opinbera heimsókn til Berlínar í júní sl. 

Njósnahneykslið hefur leitt til þess að leiðtogar í Evrópu krefjast þess að gerðt verði nýtt samkomulag við Bandaríkin um upplýsingaöflun, en farið er fram á að ríkin starfi saman og haldi áfram baráttunni gegn hryðjuverkahópum. 

Þýsk stjórnvöld hafa ákveðið að senda yfirmenn þýsku leyniþjónustunnar til Bandaríkjanna í næstu viku til að krefja þarlend yfirvöld svara í deilunni, sem hefur skaðað samskipti ríkjanna. 

Merkel hafði samband við Obama vegna málsins sl. miðvikudag en hún segir að ríki sem njósni um eigin bandamenn skaði traust sem ríkir á milli þjóða sem eigi í alþjóðlegu samstarfi. 

Málið leiddi jafnframt til þess að þýsk stjórnvöld kölluðu sendiherra Bandaríkjanna í Berlín á sinn fund, en það er afar óalgengt að nánir bandamenn grípi til slíkra aðgerða.

Frankfurter Allgemeine Sonntagszeitung greindi frá því í gær, að Obama hefði tjáð Merkel, þegar hún hringdi í hann sl. miðvikudag, að hann hefði ekki vita að verið væri að hlera símann hennar.

Der Spiegel segir að hann hafi sagt við kanslarann að ef hann hefði vitað um málið þá hefði hann stöðvað hleranirnar þegar í stað. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert