Lögreglan á Kýpur rannsakar nú hvort maður sem sást á eyjunni nýverið sé sá sami og var rænt sem barni á grísku eyjunni Kos árið 1991.
„Rannsókn er hafin eftir að við fengum skilaboð frá Interpol,“ segir talsmaður lögreglunnar.
Gríska lögreglan fékk fyrir skömmu í hendur myndband af manni sem sást á Kýpur en hann er talinn líkjast pilti, Ben Needham, sem var rænt árið 1991.
Lögreglu Needhams hefur verið gert viðvart. Á myndbandinu sést ungur maður meðal róma-fólks á trúarhátíð í bænum Limassol. Rannsókn lögreglunnar hófst þar en talið er líklegt að hún muni teygja anga sína víðar.
Maðurinn sem tók upp myndbandið var hvattur til að láta lögregluna fá það í kjölfar máls Mariu litlu, stúlkunnar sem fannst meðal róma-fólks á Grikklandi.
Ben var 21 mánaðar gamall er honum var rænt. Hann var á eyjunni Kos í fríi með fjölskyldu sinni. Sé hann á lífi er hann nú 23 ára.
Breskir fjölmiðlar segja að móðir Bens ætli að fara til Kýpur ef frekari vísbendingar finnast. Finnist maðurinn sem sést á myndbandinu verður farið fram á DNA-rannsókn.
Maðurinn á myndbandinu er með ljósbrúnt hár og blá augu. Hann er sagður hafa flutt til Kýpur ásamt róma-fjölskyldu fyrir nokkrum árum til að komast hjá herskyldu á Grikklandi.
Ben hvarf 24. júlí árið 1991.