Karlmaður í Detroit lést í bílslysi er hann fylgdi sjúkrabíl sem flutti systur hans á sjúkrahús. Systirin hafði skotið sjálfa sig og var úrskurðuð látin er hún kom á sjúkrahúsið.
Stúlkan var 21 árs. Hún var á bar fjölskyldunnar í Detroit snemma á sunnudag. Þar tók hún byssu, fór inn í bakherbergi og skaut sjálfa sig, að því er fram kemur í frétt Detroit News.
Frændi hennar segir að hún hafi þjáðst af miklu þunglyndi. Hann segir að um 8-10 manns hafi verið á barnum er hún skaut sig. Hún var flutt í sjúkrabíl á sjúkrahús og fór tvítugur bróðir hennar rakleiðis í átt að sjúkrahúsinu. Hann komst þó aldrei þangað því hann lenti í árekstri við annan bíl og lést.
Þetta er þriðja dauðsfallið í fjölskyldunni á stuttum tíma. Fyrir hálfu ári skaut bróðirinn stjúpföður systkinanna í sjálfsvörn.
Sjá frétt Huffington Post um málið.