Bandarísk kona, Brooke Greenberg, lést á dögunum tvítug að aldri. Vísindamenn hafa klórað sér í höfðinu vegna hennar en hún var greind með sjúkdóm X sem gerði það að verkum að hún náði aldrei meiri líkamlegum þroska en tveggja ára barn. Brooke var ein af rúmum tug barna í heiminum sem greind hafa verið með sama sjúkdóm.
Fram kemur á fréttavef bandarísku ABC-sjónvarpsstöðvarinnar að um sé að ræða afbrigði af Benjamin Button-sjúkdóminum sem komi í veg fyrir að þeir sem eru haldnir sjúkdóminum eldist. Henni hafði verið keyrt um í barnakerru allt sitt líf, hún lærði aldrei að tala en hló þegar henni leið vel og bar greinilega kennsl á systur sínar þrjár, Emily, Caitlin og Carly.
Brooke þurfti á lífsleiðinni að ganga í gegnum margar erfiðar aðgerðir á sjúkrahúsi við ýmsum kvillum sem hrjáðu hana. Fjögurra ára gömul fékk hún svefnsýki og í kjölfarið fundu læknar heilaæxli í höfði hennar. Foreldrar hennar stóðu í þeirri meiningu að hún lægi fyrir dauðanum og keyptu í kjölfarið líkkistu. En hún náði hins vegar bata.
Læknirinn Richard F. Walker, sem nú er á eftirlaunum, hefur fylgst með Brooke síðan hún var tveggja ára gömul. Hann hefur helgað sig rannsóknum á börnum með þennan sjúkdóm. Lýsa megi ástandi þeirra þannig að líkami þeirra starfi ekki sem ein samræmd heild og sumir líkamshlutar þróist öðruvísi en aðrir. Þannig hafi Brooke til dæmis enn verið með barnatennur 16 ára gömul en bein hennar voru hins vegar eins og í tíu ára barni.
Walker hefur einnig fylgst með Gabby Williams sem er átta ára gömul en aðeins fimm kíló og 29 ára gamlan karlmann frá Flórída sem hefur líkama sem er á við 10 ára gamalt barn.