Mælt með kerfisbundnum hýðingum

Barn flengt í Þýskalandi árið 1935.
Barn flengt í Þýskalandi árið 1935. Ljósmynd/German Federal Archives

Nokkur börn hafa á liðnum árum látið lífið í Bandaríkjunum í kjölfar þess að hafa verið beitt miklum líkamlegum refsingum af hálfu foreldra sinna sem sótt hafa ráðleggingar um uppeldi barna sinna í kenningar bandaríska prestsins Michaels Pearl og eiginkonu hans Debi. Þar á meðal 13 ára stúlka sem bandarísk hjón ættleiddu frá Eþíópíu en hún lést úr ofkælingu í bakgarði þeirra í maí 2011 eftir að þau neyddu hana til að hírast þar. Hjónin, Larry og Carri Williams, voru dæmd í áratugafangelsi vegna málsins í gær.

Kenningar hjónanna hafa einkum verið sóttar í bók sem þau gáfu út árið 1994 og heitir To Train Up a Child eða á íslensku Að þjálfa barn þar sem meðal annars er mælt með kerfisbundnum hýðingum til þess að tryggja undirgefni barna. Þannig ráðleggja þau notkun písks eða slöngu til þess að hýða börn niður sex mánaða gömul samkvæmt fréttaveitunni Yahoo News. Belti skuli hins vegar notað á eldri börn eða trjágreinar sem séu nógu stífar til þess að valda sársauka. Haft er eftir Michael Pearl að um sé að ræða hliðstæðar aðferðir og Amish-fólk noti til þess að eiga við þrjóskan asna.

Sjö ára hýdd klukkustundum saman

Fram kemur í fréttinni að um 670 þúsund einstök af bókinni hafi selst þegar fréttin er rituð. Hún hafi meðal annars notið vinsælda hjá sumum af þeim sem hafi lagt áherslu á heimakennslu fyrir börn sín. Þar á meðal Larry og Carri Williams. Michael og Debi Pearl hafi hins vegar ekki verið ákærð í málinu gegn Larry og Carri. Haft er eftir barnalækninum Frances Chalmers, sem rannsakaði dauða ættleiddrar dóttur þeirra, að kenningar Pearl-hjónanna kunni engu að síður að hafa átt þátt í dauða hennar.

Ennfremur segir í fréttinni að það sama kunni að hafa verið raunin í tilfelli stúlku að nafni Lydia Schatz sem var ættleidd fjögurra ára gömul af hjónunum Kevin og Elizabeth Schatz árið 2007 þá fjögurra ára að aldri. Hún lést árið 2010 sjö ára gömul eftir að foreldrar hennar höfðu hýtt hana klukkustundum saman á milli þess sem þau báðu bænir. Hjónin voru í kjölfarið dæmd til langrar fangelsisvistar eftir að þau gengust við því að vera sek um manndráp af gáleysi og að hafa beitt pyntingum og ólöglegum líkamlegum refsingum. Líkt og Larry og Carri Williams áttu hjónin eintak af bók Pearl-hjónanna.

Þjálfaði börnin í að ljúga að yfirvöldum

Sömuleiðis er á fréttavef bandarísku ABC-sjónvarpsstöðvarinnar sagt frá Melissu Fletcher en móðir hennar þjálfaði hana og systkini hennar frá unga aldri í því að ljúga að barnaverndaryfirvöldum að marblettir sem þau höfðu eða meiðsli væru tilkomin vegna þess að þau hefðu dottið eða rekið sig í eitthvað. Til þess að reyna þau klæddi hún sig reglulega upp í dulargervi og hringdi dyraböllunni á heimili þeirra og sagði börnunum að hún héti Myrtle og væri frá bandaverndarnefnd. Hún vildi ekki að börnin segðu frá því að eiginmaður hennar hýddi börnin reglulega í tvo til þrjá klukkutíma samkvæmt kenningum Michaels Pearl.

Þá er fjallað í fréttinni um Sean Paddock sem lést vegna köfnunar árið 2006 fjögurra ára að aldri eftir að hann hafði verið vafinn mjög þétt inn í teppi. Móðir hans, Lynn Paddock, var ákærð fyrir morð, en hún sagðist hafa aflað sér upplýsinga af heimasíðu Pearl-hjónanna. Systkini Seans báru vitni fyrir rétti um að þau hefðu verið hýdd daglega með pípulagningaröri í samræmi við kenningar Pearl-hjónanna.

Hafna ábyrgð á dauða barnanna

Fram kemur í fréttinni að Pearl-hjónin haldi því fram að Biblían leggi áherslu á að börn séu beitt líkamlegum refsingum. Þá hafi Michael Pearl hafnað því að kenningar hans beri einhverja ábyrgð á dauða umræddra barna. Þannig sé ekki hægt að kenna 12-spora bók um áfengissýki manns finnist hún á heimili hans. Þau hjónin leggi mikla áherslu á að refsa ekki börnum í reiði og að skilja ekki eftir marbletti eða aðra áverka á þeim. Ábyrgðin sé þeirra foreldra sem í hlut eigi.

Margir kristnir Bandaríkjamenn hafa mótmælt kenningum Pearls og þar á meðal Crystal Lutton sem heldur úti kristinni bloggsíðu sem berst gegn líkamlegum refsingum. Hún bendir meðal annars á að kenningarnar feli í sér að ef tilætlaður árangur skili sér ekki með slíkum refsingum sé eina leiðin að ganga lengra og lengra. Þá hafa sumir kristnir söfnuðir þrýst á bókasölur eins og Amazon.com að taka bók Pearl-hjónanna úr sölu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka