Meirihluti Svía hefur verið andvígur því að ganga í NATO í nær tuttugu ár. Svo virðist hins vegar sem Svíar séu að mýkjast í afstöðu sinni til sambandsins. Árið 2011 voru 22% þjóðarinnar fylgjandi inngöngu, og 50% andvígir á meðan 28% voru óvissir. Nú á árinu 2013 eru 29% fylgjandi, 32% andvígir og 39% óvissir.
Ástæðan er talin vera tilhugsunin um hernaðaraðgerðir í Eystrasaltslöndunum. Rússar og Hvítrússar héldu á dögunum 70 þúsund manna hernaðaræfingu þar sem æfð voru viðbrögð við árás á Pólland og Eystrasaltsríkin. Æfingin reyndist mun fjölmennari en Rússar höfðu tilkynnt um fyrirfram. Herforinginn Karlis Neretnieks hjá sænska hernum segir Svía vera í erfiðri stöðu ef til átaka kæmi í Eystrasaltslöndunum. Þá myndu bæði Rússland og NATO vilja fá að nota Sænsk landsvæði til þess að verja hagsmuni sína. „Til þess að geta tekið á móti hersveitum frá NATO í slíku tilfelli verður Svíþjóð að vera meðlimur að bandalaginu,“ segir Neretnieks í viðtali við Aftenposten.
Eins og stendur eru aðeins tveir stjórnmálaflokkar á sænska þinginu sem styðja inngöngu í NATO. Það eru Hægriflokkurinn og Þjóðarflokkurinn. Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar tekur ekki undir orð Neretnieks og vill meina að sænski herinn sé nægilega vel útbúinn eins og staðan sé í dag.
Sjá frétt Aftenposten um málið.