Fjölskyldur og aðrir aðstandendur 129 Spánverja, sem voru drepnir af hersveitum Franco hershöfðingja í borgarastríðinu, héldu í dag minningarathöfn, þegar líkamsleifar þeirra voru greftraðar.
Fólkið var drepið á tímabilinu frá júlí til október árið 1936 við bæinn Arando de Duero og líkum þeirra varpað í fjöldagröf, sem fannst ekki fyrr en löngu síðar. Alls voru um 600 manns drepnir í og við bæinn á þessum tíma.
Undanfarin 13 ár hafa um 6.300 lík verið grafin úr fjöldagröfum á Spáni. Búið er að bera kennsl á 2.500 þeirra. Það eru sjálfboðaliðasamtök sem vinna þá vinnu, án aðkomu spænska ríkisins.
Í borgarastríðinu 1936-1939 og einræðistíð Francisco Franco sem á eftir fylgdi hurfu yfir 114.000 Spánverjar sporlaust, samkvæmt rannsókn á stríðsglæpunum, hverrar niðurstöður lágu fyrir árið 2008.
Vaxandi alþjóðlegur þrýstingur er á spænsk stjórnvöld að hefja rannsókn á þessum mannshvörfum, eftir að Sameinuðu þjóðirnar fóru fram á það nú í október að stjórnvöld afnæmu lög um sakaruppgjöf fyrir stríðsglæpi á einræðistímanum. Lögin voru samþykkt árið 1977, tveimur dögum eftir dauða Franco.