Drápið spillir friðarviðræðum

Innanríkisráðherra Pakistan, Chaudhry Nisar Ali Khan, segir að dauði leiðtoga talibana í Pakistan, Hakimullah Mehsud, hafi komið í veg fyrir frekari friðarviðræður milli stjórnvalda og talibana.

„Þetta snýst ekki bara um dauða eins manns heldur dauða viðræðna um frið,“ segir Ali Khan.

Mikill viðbúnaður er hjá lögreglu og her í Pakistan eftir að ómannaðar flaugar drápu Mehsud og fjóra aðra í gær.

Samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins stóð til að sendinefnd á vegum pakistanskra stjórnvalda færi á fund Mehsud í Norður-Waziristan.

Forsætisráðherra landsins, Nawaz Sharif, hefur ítrekað reynt að koma á samkomulagi við talibana til að binda endi á ofbeldisölduna í Pakistan sem hefur kostað þúsundir lífið.

Telja ýmsir stjórnmálaskýrendur að dauði Mehsud muni auka möguleika þeirra hópa sem ekki hafa viljað semja um frið við stjórnvöld í Pakistan og ekkert lát verði á skálmöldinni þar.

Mehsud varð leiðtogi talíbana í Pakistan árið 2009, þá þrítugur að aldri, eftir að forveri hans féll. Þar var einnig flugskeyti frá ómannaðri flugvél Bandaríkjahers að verki. Hann vann sig m.a. til metorða sem foringi skæruliðasveitar talínbana sem tók 300 pakistanska stjórnarhermenn fanga árið 2007.

Bandaríska alríkislögreglan, FBI, lagði 5 milljónir dala til höfuðs Mehsud, sem var talinn ábyrgur fyrir dauða þúsunda manna.

Lesið um dauða leiðtoga talibana í Pakistan
Lesið um dauða leiðtoga talibana í Pakistan AFP
Hakimullah Mehsud
Hakimullah Mehsud AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert