Liðskona Pussy Riot horfin umheiminum

Nadezhda Tolokonnikova, liðskona Pussy Riot,
Nadezhda Tolokonnikova, liðskona Pussy Riot, AFP

Ekkert hefur spurst til Nadezhdu Tolokonníkovu eftir að hún var flutt á milli fangelsa fyrir tíu dögum. Tolokonníkova var dæmd í tveggja ára vistunar í fangabúðum fyrir mótmæli í kirkju með félögum sínum í rússnesku pönksveitinni Pussy Riot.

Breska ríkisútvarpið hefur eftir rússneskum og bandarískum fjölmiðlum að eiginmaður hennar hafi sagt í viðtali við bandarískan fréttavef að hann hafi ekki heyrt af né í eiginkonu sinni frá því hún var flutt á milli fangelsa og hann viti ekki hvar henni er haldið.

Tolokonníkova fór í hungurverkfall í fangabúðunum sem hún dvaldi áður í Mordovíu í september til að mótmæla aðbúnaði í búðunum en hætti eftir átta daga svelti af heilsufarsástæðum. Eiginmaður hennar segist hafa frétt af henni þann 21. október sl. er fangaverðir fóru með hana um borð í lest þar sem flytja átti hana í annað fangelsi. Hún sást um borð í lest í borginni Chelibinsk í Úralfjöllunum þann 24. október.

Eiginmaður hennar, Pyotr Verzilov, telur að ákvörðun um að flytja hana í annað fangelsi hafi verið tekin af stjórnvöldum í Moskvu. „Þau vilja slíta tengsl hennar við umheiminn.“

Hann segir hana enn veikburða eftir hungurverkfallið og sakar stjórnvöld um að hegna henni fyrir mótmælin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert