Borgarstjórinn í Toronto í Kanada, Rob Ford, bað í dag afsökunar á því að hafa gert mistök en neitar að viðurkenna að hann hafi reykt krakk kókaín líkt og fram kemur í myndskeiði sem á að vera til.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Ford lendir í vandræðum vegna þessa myndskeiðs en hann neitaði því í maí að hafa reykt krakk líkt og haldið hafði verið fram í fjölmiðlum. En Ford neitar að ræða viðkomandi myndskeið og hefur ekki upplýst hvers vegna hann er að biðja afsökunar. Ford sagði í dag að hann ætlaði að bjóða sig fram til endurkjörs á næsta ári.
Hann hvatti lögregluna til þess að birta myndskeiðið í vikulegum útvarpsþætti sínum The City (Borgin) í dag. Vísaði hann þar til ummæla lögreglustjórans í Toronto um að hann hefði myndskeiðið undir höndum.
Bill Blair, lögreglustjóri Toronto, sagði á fimmtudag að lögreglan hefði myndbandið undir höndum en blaðið Toronto Star og fréttavefurinn Gawker greindu frá tilurð þess fyrr á árinu. Blair lýsti því ekkert frekar hvað væri að finna á myndskeiðinu nema að borgarstjórinn sæist á því við þá iðju sem áður hefði verið greint frá. Það væri dómstóla að ákveða framhaldið, hvort birta ætti myndskeiðið opinberlega eður ei.
Myndband af borgarstjóra reykja krakk