Kúbversk yfirvöld hafa tekið ákvörðun um að loka öllum einkareknum kvikmyndahúsum og tölvuleikjasölum í landinu. Ástæðan ku vera sú að aldrei hafi verið gefið út leyfi fyrir rekstri þessara staða.
Í yfirlýsingu frá stjórnvöldum sem birtist í dagblaðinu Granma, segir að það sé nauðsynlegt að hafa stjórn á einkageiranum í landinu. Enn fremur sagði að ekki væri um samfélagslega afturför að ræða. „Þvert á móti, við munum halda áfram að þróa okkar efnahagsmódel í átt til framþróunar,“ segir í tilkynningunni.
Raul Castro, forseti Kúbu og bróðir Fidels Castro, hefur á undanförnum árum aukið efnahagslegt frelsi landsins töluvert. Þessi ákvörðun kemur sér hins vegar sérlega illa fyrir þá sem fjárfestu í kvikmyndatækjum. Á Kúbu starfa um 79% þjóðarinnar hjá ríkinu eða ríkisreknum fyrirtækjum.
Sjá frétt BBC um málið