Það vakti athygli þegar Hakimullah Mehsud, pakistanskur leiðtogi talibana, var drepinn í drónasprengjuárás að dvalarstaður hans var ekki skítugur hellir í pakistönsku fjöllunum, heldur glæsilegt býli í bænum Dandey Darpakhel. Við hliðina á húsinu, sem er hið glæsilegasta, er meira að segja myndarlegur bænaturn og á gólfum heimilisins er marmari. Heimildir fréttaveitunnar AFP segja að býlið hafi kostað Mehsud um 120 þúsund bandaríkjadali þegar hann keypti það fyrir tveimur árum.
Nágranna Mehsuds grunaði ekki að alræmdur leiðtogi talibana byggi við hliðina á þeim. „Ég sá stundum bílaröð lúxusbifreiða koma akandi að húsinu en mér datt aldrei í hug að þetta væri hann,“ sagði Akhter Khan sem rekur verslun í nágrenninu.
Bærinn Dandey Darpakhel er þekktur sem yfirráðasvæði Haqqani-hópsins, sem er talinn standa á bakvið nokkrar af stærstu árásunum sem hafa verið gerðar í Afganistan á undanförnum árum.
Samiullah Wazir, sem einnig rekur verslun í nágrenninu, grunaði heldur ekki að Mehsud byggi á svæðinu. „Ég sá eitt sinn mann í hvítum kyrtli sem minnti á Mehsud. Ég hugsaði samt með mér að þetta gæti ekki verið hann, enda væri hann of auðvelt skotmark hér í bænum. Svo komu þeir keyrandi að húsinu einn daginn. Rétt áður en þeir komu að húsinu sprakk sprengja á bílnum og þeir dóu. Örfáum sekúndum seinna voru talibanarnir búnir að girða svæðið af,“ sagði Wazir í samtali við AFP.